Ályktun ráðs Femínstafélags Íslands um staðgöngumæðrun

Femínistafélag Íslands leggst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni.

Femínistafélagið telur að staðgöngumæðrun sé svo tilfinningalega, líkamlega og siðferðislega flókið mál að ógerlegt sé að tryggja velferð, öryggi og hagsmuni móður, barns og allra þeirra sem að ferlinu koma.

Femínistafélagið hefur mikla samúð með fólki sem getur ekki eignast börn. Hagsmunir þeirra sem vilja eignast börn vega hins vegar minna en yfirráð kvenna yfir eigin líkama og frelsi kvenna frá kröfum um að þær vinni tilfinningaleg og líkamleg þrekvirki til að tryggja hamingju annarra.

Barneignir eru ekki sjálfsögð mannréttindi. Konur og æxlunarfæri þeirra eru ekki leið að markmiðum annarra. Börn eru ekki framleiðsluvara.

Femínistafélag Íslands hvetur þingheim til að leggjast frekar í það starf að auðvelda ættleiðingarferlið heldur en að heimila staðgöngumæðrun.

Ályktun aðalfundar Femínistafélags Íslands 15. maí 2014

Femínistafélag Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna aukins fjölda mála þar sem kynferðislegum myndum og myndböndum af fólki er dreift án samþykkis. Dreifing slíkra mynda og myndbanda er ofbeldisfullur gjörningur og óhugnanleg afleiðing og birtingarmynd klámvæðingar. Fjölgun mála af þessu tagi verður að taka alvarlega því að afleiðingarnar fyrir þolendur eru skelfilegar.

Femínistafélag Íslands krefst þess að yfirvöld bregðist við þessu ástandi. Skoða verður lagarammann og hver staða þolenda er í þessum málum. Dreifing mynda og myndbanda þar sem einstaklingar eru undir lögaldri er barnaklám, og það verður að vera forgangsmál lögreglu að uppræta það.

Femínistafélagið skorar á stjórnvöld að veita auknu fjármagni í forvarnir, m.a. með fræðslu um traust, ábyrgð og virðingu í samskiptum. Einnig þarf að styðja vel við aðila sem vinna með þolendum kynferðisofbeldis til að skapa sterkara stuðningsnet fyrir þolendur, bæði í formi sálrænnar aðstoðar og lögfræðilegrar.

Aðalfundur Femínistafélags Íslands 2014

Aðalfundur Femínistafélags Íslands verður haldinn þann 15. maí 2014, kl. 20:00, stofu 202. Odda, Háskóla Íslands. Að fundi loknum er síðan haldið yfir í Stútendtakjallaran til að lyfta sér upp.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, þar á meðal kosning í ráð Femínistafélags Íslands fyrir starfsárið 2014-2015. Óskað er eftir framboðum í stjórn og má tilkynna þau á netfangið feministinn@feministinn.is eða á aðalfundinum sjálfum.

Á fundinum verða ný verkefni félagsins rædd, til dæmis verkefni um tjáningarfrelsi og hótanalögsóknir, sem félagið hefur hlotið styrki til að vinna að. Einnig verða kynntar helstu niðurstöður úr stefnumótunarvinnu sem ráðskonur unnu með nemendum í HÍ.

Á aðalfundum eru afgreiddar tillögur um lagabreytingar og þurfa þær að hafa borist á fyrrnefnt netfang fimm dögum fyrir aðalfund.

Árgjald Femínistafélags Íslands er kr. 2.000,-. Félagið rekur sig einvörðungu fyrir frjáls framlög, árgjöld og tilfallandi styrki. Félagar, þeir sem ekki hafa þegar gert það, vinsamlegast greiðið árgjaldið við fyrsta tækifæri. Reikn. 0336-26-300544, kt. 680303-4010.

Hitt um kynjafræðikennslu og femínisma framtíðarinnar

Undanfarin misseri hefur orðið gleðilega mikil fjölgun femínistafélaga í framhaldsskólum landsins. Femínistafélags Íslands fagnar þessari grósku og stendur í samvinnu við Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna fyrir Hitti um femínisma framtíðarinnar og kynjafræðikennslu, en landssambandið hefur einmitt ályktað um mikilvægi kynjafræðikennslu í skólum.

Framsögu á Hittinu heldur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari í kynjafræðum við Borgarholtsskóla. Hanna kallar erindi sitt “Fræðsla er minn femínismi”. Einnig mun Steinunn Ólína Hafliðadóttir frá Landssambandi femínistafélaga framhaldsskólanna tala um reynslu sína af kynjafræðikennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Eftir framsögur þeirra Hönnu og Steinunnar verða umræður um kynjafræðikennslu og femínískar áherslur í framtíðinni, hvaða mál mun ný kynslóð ungra femínista setja á oddinn og hvernig tökum við áfram fleiri framfaraskref innan femínismans!

Hittið er haldið á kvennaheimilinu Hallveigarstöðum þriðjudaginn 29. apríl kl. 20.

Í tilefni baráttudags kvenna fyrir friði og jafnrétti

Ég var sautján ára þegar ég byrjaði að kalla mig femínista. Eða það er að segja, gerði heiðarlega tilraun til þess. Sú tilraun fór skjótt út um þúfur þegar að eldri strákavinur minn upplýsti mig um það að femínistar væru vanstilltar konur sem brenndu brjóstahaldara á götum úti. Þá snarhætti ég að kalla mig femínista. Jafnréttissinni var ásættanlegt orð fyrir fólk eins og mig og því kallaði ég mig það næstu árin. Það var ekki fyrr en ég var tæplega tvítug að ég hafði kjark til að byrja aftur að kalla mig femínista.

„Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð, og vill gera eitthvað í því“. Þetta er sú skilgreining sem Femínistafélag Íslands hefur notast við þegar svara á spurningunni um hvað femínisti er. Að mínu mati er það seinniparturinn af þessari skilgreiningu sem skiptir miklu máli varðandi það að vera femínisti. Femínismi felur nefnilega í sér aktívisma, að vera tilbúinn til að taka þátt í að breyta samfélaginu til batnaðar, til jafnréttis.

Að breyta samfélaginu er ekkert létt verk. Stundum rekst maður á veggi og stundum er manni ætlað allt illt. En samfélagið breytist ekkert nema fólk stígi fram, færi rammann, stækki hann og dýpki umræðuna, og þori, þrátt fyrir að mæta mótlæti. Rauðsokkum var úthúðað á sínum tíma. Kvennalistakonum líka. Og á tímum kommentakerfanna þá er ekkert alltaf næs og huggulegt að tala fyrir femínískum málefnum. En ef Rauðsokkur hefðu ekki þorað þá hefðu kannski leikskólapláss ekki orðið sjálfsagður hlutur. Og ef ekki væri fyrir Kvennalistann þá hefði fæðingarorlofið kannski ekkert verið lengt úr þremur mánuðum. Og hugsum um hversu mikið umræðan um kynbundið ofbeldi hefur opnast á síðustu árum fyrir tilstilli femínista. Þessir áfangar sýna okkur að baráttan skiptir of miklu máli til að láta draga úr sér kjarkinn.

Oft eru það líka litlu hlutirnir sem hvert og eitt okkar getur lagt af mörkum í baráttunni. Bara að segja „ég er femínisti“ getur skipt máli. Í dag er litla systir mín jafn gömul og ég var þegar mér var talið trú um að það væri slæmt að kalla sig femínista. Ég held að hún lendi ekkert síður í því að heyra um hversu ómögulegir femínistar eru, heldur en ég gerði í þá daga. En ég leyfi mér að vera bjartsýn fyrir hennar hönd. Í dag er nefnilega femínistafélag í skólanum hennar, gamla menntaskólanum mínum. Og svo veit hún að systir hennar er alls ekki svo slæm pía (þó ég segi sjálf frá) – þó hún sé yfirlýstur femínisti!

Til hamingju með daginn og áfram femínistar!

 

Steinunn Rögnvaldsdóttir

Talskona Femínistafélags Íslands

Greinin birtist 8. mars 2014 í Reykjavík Vikublaði