Í tilefni baráttudags kvenna fyrir friði og jafnrétti

Ég var sautján ára þegar ég byrjaði að kalla mig femínista. Eða það er að segja, gerði heiðarlega tilraun til þess. Sú tilraun fór skjótt út um þúfur þegar að eldri strákavinur minn upplýsti mig um það að femínistar væru vanstilltar konur sem brenndu brjóstahaldara á götum úti. Þá snarhætti ég að kalla mig femínista. Jafnréttissinni var ásættanlegt orð fyrir fólk eins og mig og því kallaði ég mig það næstu árin. Það var ekki fyrr en ég var tæplega tvítug að ég hafði kjark til að byrja aftur að kalla mig femínista.

„Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð, og vill gera eitthvað í því“. Þetta er sú skilgreining sem Femínistafélag Íslands hefur notast við þegar svara á spurningunni um hvað femínisti er. Að mínu mati er það seinniparturinn af þessari skilgreiningu sem skiptir miklu máli varðandi það að vera femínisti. Femínismi felur nefnilega í sér aktívisma, að vera tilbúinn til að taka þátt í að breyta samfélaginu til batnaðar, til jafnréttis.

Að breyta samfélaginu er ekkert létt verk. Stundum rekst maður á veggi og stundum er manni ætlað allt illt. En samfélagið breytist ekkert nema fólk stígi fram, færi rammann, stækki hann og dýpki umræðuna, og þori, þrátt fyrir að mæta mótlæti. Rauðsokkum var úthúðað á sínum tíma. Kvennalistakonum líka. Og á tímum kommentakerfanna þá er ekkert alltaf næs og huggulegt að tala fyrir femínískum málefnum. En ef Rauðsokkur hefðu ekki þorað þá hefðu kannski leikskólapláss ekki orðið sjálfsagður hlutur. Og ef ekki væri fyrir Kvennalistann þá hefði fæðingarorlofið kannski ekkert verið lengt úr þremur mánuðum. Og hugsum um hversu mikið umræðan um kynbundið ofbeldi hefur opnast á síðustu árum fyrir tilstilli femínista. Þessir áfangar sýna okkur að baráttan skiptir of miklu máli til að láta draga úr sér kjarkinn.

Oft eru það líka litlu hlutirnir sem hvert og eitt okkar getur lagt af mörkum í baráttunni. Bara að segja „ég er femínisti“ getur skipt máli. Í dag er litla systir mín jafn gömul og ég var þegar mér var talið trú um að það væri slæmt að kalla sig femínista. Ég held að hún lendi ekkert síður í því að heyra um hversu ómögulegir femínistar eru, heldur en ég gerði í þá daga. En ég leyfi mér að vera bjartsýn fyrir hennar hönd. Í dag er nefnilega femínistafélag í skólanum hennar, gamla menntaskólanum mínum. Og svo veit hún að systir hennar er alls ekki svo slæm pía (þó ég segi sjálf frá) – þó hún sé yfirlýstur femínisti!

Til hamingju með daginn og áfram femínistar!

 

Steinunn Rögnvaldsdóttir

Talskona Femínistafélags Íslands

Greinin birtist 8. mars 2014 í Reykjavík Vikublaði

Hermione Granger pöbbkviss 27. desember

Hver er uppáhaldsbók Hermione Granger? Hvað eru margir leikmenn á vellinum í quidditch? Hvað heitir Dumbledore fullu nafni?

Liggurðu á meltunni eftir hátíðirnar? Komdu blóðinu á hreyfingu í æsispennandi pöbbkvissi helguðu Hermione Granger og galdraheiminum í Hogwarts.

Herlegheitin hefjast kl. 20 föstudaginn 27. desember á Bravó, Laugavegi. Skálum saman milli jóla og nýárs!

Harry-Potter-Deathly-Hallows-movie-image

Femínistafélag Íslands

Hið árlega jólabókahitt FÍ er á næsta leiti, nánar til tekið mánudaginn 9. Desember. Hittið verður á Hallveigarstöðum, Túngötu 14(aðgengi in um vinstri hurð). Húsið er opið frá 19:00. En þá er opinn ráðsfundur FÍ sem er eins og gefur að skilja opinn öllum áhugasömum.
Dagkráin hefst síðan staðfastlega klukkan 20:00. Þá munu glæsilegir gestir lesa upp úr bókum sínum og almenn jólagleði taka völdin.

Jónína Leósdóttir les úr “Við Jóhanna”
Sif Sigmarsdóttir les úr “Múrinn”
Anna Margrét Björnsdóttir les úr “Að vera kona”

Það verða piparkökur og kósýheit og því er endilega að taka fólk með sér.

Hún fékk bók og hann fékk nál og tvinna…

Ályktun Femínistafélags Íslands um staðalímyndir og barnaleikföng 

Það er Femínistafélagi Íslands bæði ljúft og skylt að hrósa því þegar jafnréttissjónarmið eru höfð til hliðsjónar í starfsemi aðila sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif. Af því tilefni vill félagið hrósa leikfangafyrirtækinu Toys r Us fyrir nýútkominn jólagjafabækling sinn sem hefur farið víða. Ástæða þess að Femínistafélagið telur ástæðu til að hrósa fyrirtækinu er sú að í auglýsingaefninu í bæklingnum er gerð tilraun til að brjóta upp kynjaðar staðalímyndir um áhugasvið barna. Þar má sjá stelpur og stráka leika sér saman í bíló og barbí, með smíðasett og eldhúsdót, með dúkkur og risaeðlur – án þess að þessi leikföng séu sérstaklega ætluð öðru kyninu. Það er mjög ánægjulegt að sjá að staðalímyndir eru lagðar til hliðar og áhersla lögð á að börn geti leikið sér með hvaða leikföng sem þeim finnst skemmtileg – óháð kyni.

Femínistafélag Íslands vill nota þetta tækifæri og hvetja foreldra, forráðamenn, afa og ömmur, systkini og yfir höfuð öll þau sem að kaupa jólagjafir handa börnum um þessi jól, til þess að gera ekki börnum þann óleik að setja þau í bláa eða bleika kassa. Við vonum að fólk leyfi sér að hugsa út fyrir rammann og gefi strákum og stelpum leikföng sem eru þroskandi og skemmtileg, burtséð frá því hvað hefur hingað til verið skilgreint sem „stelpudót“ og „strákadót“.

Staðalímyndir um áhugasvið barna eru sérstaklega líklegar til að bitna á strákum þar sem að ekki er jafn félagslega viðurkennt að vera „strákastelpa“ og að vera „stelpustrákur“ – í merkingunni að sýna því áhuga sem hefur verið talið tilheyra áhugasviði gagnstæða kynsins. Börn eiga að fá að vera börn, leika sér og hafa frelsi til að velja sér áhugasvið, uppáhaldsliti og -leiki, án þrýstings frá samfélaginu eða markaðsdeildum fyrirtækja. Þess vegna er mikilvægt að senda börnum þau skilaboð að þeirra rými sé ekki takmarkað við það sem er bleikt eða blátt eða stelpulegt eða strákalegt, og gæta í því samhengi að því að val á jólagjöfum ýti ekki undir heftandi staðalímyndir.

Umsögn Femínistafélags Íslands um frumvarp um refsivernd fyrir transfólk

Til nefndasviðs Alþingis
Reykjavík, 28. október 2013

Efni
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótar- bókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot). 109. mál, lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.

Umsögn
Ráð Femínistafélags Íslands hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, þar sem mismunun á grundvelli kynvitundar er gerð ólögleg og transfólki þar með veitt refsivernd gegn hatursáróðri.

Femínistafélag Íslands fagnar framkomnu frumvarpi innanríkisráðherra og styður það heils hugar. Félagið gerir ekki aðrar athugasemdir við innihald frumvarpsins en að leggja til viðbót. Félagið leggur til að bætt verði við í frumvarpið að ólöglegt verði að ráðast með hatursáróðri að einstaklingum á grundvelli kynferðis þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að 233. gr. laganna orðist svo: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Hér leggur Femínistafélagið til að bætt verði inn orðinu „kynferði“ í upptalningu.

Á undanförnum misserum hafa komið fram allmörg tilvik þar sem færa má rök fyrir því að viðhafður sé hatursáróður gegn konum. Áróðurinn felst m.a. í því að konur eru smættaðar niður í kynfæri og viðföng í kynferðislegum tilgangi, viðhöfð er ógnandi, smánandi og lítislvirðandi orðræða gagnvart þeim og lítið gert úr verðleikum þeirra. Slíkur hatursáróður finnur sér gjarnan farveg á netinu og skemmst er þess að minnast að stjórnendur samskiptavefsins Facebook voru gagnrýndir harkalega fyrir að leyfa hatursáróðri gegn konum á samskiptavefnum að viðgangast (1).

Að mati Femínistafélags Íslands er ljóst að þörf er á að sporna gegn hatursáróðri vegna kynferðis. Við það tækifæri að sú ágæta breyting er gerð á hegningarlögum að hatursáróður gegn transfólki er gerður refsiverður, er upplagt að senda ennþá skýrari skilaboð um að hatursáróður sé ólíðandi, með þeirri aðgerð er félagið hefur hér lagt til.

(1) Sjá fréttaflutning af umræðu um hatursorðræðu gegn konum: DV 12. desember 2012: http://www.dv.is/frettir/2012/12/12/hatursarodur-rekinn-gegn-konum-islenskri-facebook-sidu/;
RÚV, 29. maí 2013: http://www.ruv.is/frett/facebook-i-samstarf-vid-feminista; Mbl.is, 26. september 2013: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/26/hreinn_hatursarodur_egils/